- Heim
- Hvers vegna vegan?
- Uppskriftir og vörur
- Um Samtök grænkera
- Húsdýraathvarf
- Jólaverurnar
- Vefverslunin okkar
- 0
Spurningar og svör
Hvað er veganismi?
Veganismi er sú skoðun að öll hagnýting dýra sé röng hvort sem það á við um matvælaframleiðslu, fataframleiðslu eða skemmtanir. Að vera vegan er að ákveða að forðast að neyta dýraafurða eftir bestu getu og eftir því sem praktískt getur talist. Tilgangurinn er að minnka skaða á dýrum, heilsu og umhverfi eins og hægt er.
Af hverju ætti ég að taka upp vegan lífstíl?
Til þess að lifa í samræmi við eigin lífsgildi. Ef þú telur siðferðislega rangt að valda dýri þjáningu að óþörfu ættirðu að taka upp vegan lífstíl. Vegan lífstíll hafnar innilokun og drápi dýra við hverja máltíð, þrisvar á dag. Þú ættir að taka upp vegan lífstíl vegna þess að framleiðsla dýraafurða veldur meiri gróðurhúsaáhrifum en allur samgönguflotinn til samans. Einnig vegna þess að vegan heilfæði getur minnkað líkur á hjartaáfalli, sykursýki og krabbameini.
Hvað er vegan fæði?
Vegan fæði er fjölbreytt og getur verið af hvaða matarhefð sem er. Kunnuglegur matur eins og lasagna, pylsur, pizzur, vefjur, hamborgarar, sushi, jógúrt, ís og kökur getur auðveldlega verið vegan og fæst nú víða. Undanfarin ár hefur framboð af vegan mjólkurvörum, kjöti og tilbúnum réttum aukist til muna. Innihaldsefni vegan fæðis eru baunir, korn, grænmeti, ávextir, baunir, hnetur, fræ og sjávarþang. #veganmatur
Af hverju forðast veganar mjólkurvörur og egg?
Öllum húsdýrum er slátrað fyrir aldur fram. Kýr eru eins og konur að því leyti að til þess að geta mjólkað þurfa þær að eignast afkvæmi. Kálfurinn er tekinn frá kúnni nokkurra daga gamall til að bóndinn geti selt mjólkina hans. Kálfurinn er síðan nýttur sem mjólkurkýr eða nautakjöt. Þjáning dýra í mjólkurframleiðslu er því ekkert síðri en í kjötframleiðslu. Sama á við um eggjaframleiðsluna. Fuglarnir lifa stutta ævi, oftast við takmörkuð lífsgæði og enda í sama sláturhúsi og fuglar í kjötframleiðslu.
Er erfitt að vera vegan?
Það tekur vissulega tíma að tileinka sér lífstílinn en þegar því er náð er fyrirhöfnin sama og engin. Hópurinn Vegan Ísland á Facebook er frábær byrjunarreitur, þar fást góðar ráðleggingar og stuðningur samdægurs.
Er hægt að þrífast vel á vegan fæði?
Já, flest bendir til þess að vegan fæði sé heilsusamlegra en annað hefðbundið mataræði. Samtök bandarískra næringarfræðinga hafa gefið út yfirlýsingu um vegan fæði. Þar segir að vegan fæði sé ekki einungis óhætt heldur hafi það ótvíræða kosti.
"Það er afstaða Samtaka bandarískra næringarfræðinga að vel skipulagt grænmetisfæði, þar á meðal vegan fæði, er heilsusamlegt, inniheldur nóga næringu og getur nýst sem forvörn og meðferð vissra sjúkdóma. Vel skipulagt grænmetisfæði er viðeigandi fyrir einstaklinga á hvaða lífskeiði sem er, að meðtaldri meðgöngu, brjóstagjöf, ungbarnastigi, bernsku og unglingsárum og einnig fyrir íþróttafólk. Grænmetisfæði er skilgreint sem fæði sem inniheldur ekkert kjöt (þar á meðal fuglakjöt) eða fisk, eða vörur sem innihalda slíkt.Hvernig fæ ég prótein, járn, kalk, D-vítamín og B12 á vegan fæði?
Öll næringarefni sem finnast í dýraafurðum finnast líka í plöntum. Húsdýrin fá næringarefnin úr plöntum. Styttri leið til að ná sér í góða næringu er að sleppa dýrinu sem millilið og neyta plöntufæðis beint. Vegna skorts á B12 í nútímafæðu er skynsamlegt að kynna sér inntöku B12 vítamíns. Frekari upplýsingar um næringargildi vegan fæðis er að finna HÉR.
Eru Samtök grænkera á móti landbúnaði?
Samtökin eru alls ekki á móti landbúnaði. Þau eru fyrst og fremst rödd dýranna. Við teljum að dýrabændur séu gott fólk sem sinnir starfi sínu eftir bestu getu og vitund. Heimurinn er aftur á móti að breytast og við þurfum ekki lengur á dýraafurðum að halda til að þrífast vel. Við þurfum ekki lengur að loka dýr inni, gelda þau, merkja þau, taka af þeim afkvæmin og senda þau í sláturhús. Markaðurinn fyrir matvæli mun ekki minnka, því öll þurfum við að borða. Á þessum markaði verða nóg tækifæri fyrir bændur. Nú þegar hafa fyrirtæki stokkið á vagninn sem selja vegan matvæli (grænmetisbændur, berjabændur, kornbændur, Helga Mogensen, Bulsur, Heilsuréttir fjölskyldunnar, Móðir náttúra, Silva á Akureyri, heilsubúðir, veitingastaðir, veisluþjónustur og fleiri). Eðli markaða er að breytast eftir því sem eftirspurnin breytist. Okkur langar að sjá breytingar á eftirspurn sem bændur og allt samfélagið getur brugðist við í tíma.
Viljið þið útrýma húsdýrum og slátra þeim öllum?
Í dag eru húsdýr framleidd með það í huga að slátra afkvæmunum þeirra og bændurnir stýra fjölda dýranna. Þegar við hættum að framleiða húsdýr þá hætta þau að vera til. Víða erlendis eru dýraathvörf rekin fyrir dýr sem bjargað hefur verið úr matvælaframleiðslu. Dýrin í húsdýraathvörfum fá að lifa ævi sína á enda undir vernd mannsins. Hlutverk dýranna þar er að leyfa mannfólkinu að kynnast dýrunum í vinsamlegu umhverfi. Þar getur fólk fengið að sjá að húsdýr eru eins og hver önnur gæludýr. Þau hafa öll mismunandi persónuleika og vilja vera frjáls og leika sér. Samtök grænkera eiga þann draum að stofna slíkt húsdýraathvarf. Íslensk húsdýr eru innflutt frá sunnlægri slóðum og því miður lifa fæst þeirra af án verndar í Íslenskri náttúru.
Finna plöntur til?
Að skaða dýr og að skaða plöntur vekur augljóslega ekki sömu tilfinningaviðbrögð hjá manninum. Við mundum aldrei stíga viljandi á kettling eða stinga hann með hníf en við göngum á grasi og skerum grænmeti án þess að finna til nagandi samkenndar. Plöntur eru ekki skyni gæddar verur og hafa ekki miðtaugakerfi. Þær finna því ekki til á sama hátt og menn og dýr. Sumar plöntur treysta á það að verða borðaðar til að geta fjölgað sér og laða jafnvel að sér dýr. Gróðurvernd er samt sem áður mikilvæg og fátt því til fyrirstöðu að láta plöntur njóta vafans. Framleiðsla dýraafurða veldur allt að tuttugu sinnum meiri gróðureyðingu en framleiðsla plöntufæðis. Dýrin þurfa jú að borða plöntur alla ævi áður en þeim er slátrað. Þeir sem borða vegan fæði eru því að stuðla að minni gróðureyðingu og minni skaða fyrir plöntur.
Hvernig er vegan jólamatur?
Hér er tengill á myndasíðu af vegan jólamat ásamt uppskriftum.
Er hunang vegan?
Nei hunang er dýraafurð og er því ekki vegan. Við látum býflugurnar njóta vafans og notum frekar agave, hlynsýróp eða önnur sætuefni sem eru vegan.
Hver er afstaða Samtaka grænkera til gæludýra?
Gæludýr eru til nú þegar og er félagsmönnum annt um að þau fái að lifa löngu og heilbrigðu lífi. Gæludýr sem lifa með okkur sem fjölskyldumeðlimir og fá góða umönnun geta kennt manninum virðingu fyrir dýrum. Félagið sættir sig ekki við fjöldaframleiðslu og ræktun gæludýra þar sem dýrin fá ekki einstaklingsbundna umönnun og fá ekki að fara út. Við hvetjum fólk eindregið til að fylgja leiðbeiningum dýralækna um almenna umhirðu, geldingu og merkingu gæludýra.
Hver er afstaða Samtaka grænkera til hrossabúskapar?
Félaginu er annt um heilbrigði hrossa og hefur áhyggjur af velferð þeirra. Í fullkomnum heimi nýtum við engin dýr okkur til skemmtunar eða sem fararskjóta.
Er vegan að drepa skordýr?
Ef viðkomandi finnst hann þurfa að verja sig eða sitt heimili gegn sníkjudýrum eða óboðnum gestum með lyfjum eða eitri þá finnst flestum það réttlætanlegt. Í sumum tilfellum er nóg að taka dýrið varlega upp og flytja það út úr húsi. Hver og einn ákveður sín mörk. Markmiðið er að minnka skaða sem dýr verða fyrir eftir því sem hægt er og þykir praktískt hverju sinni.
Taka Samtök grænkera virkan þátt í að bæta velferð dýra í búskap?
Nú þegar eru tvö félög, Velbú og DÍS, að berjast fyrir bættri velferð dýra. Vinna þeirra er bæði áríðandi og mikilvæg. Flestir sem eru vegan eru hins vegar á þeirri skoðun að það að drepa dýr að óþörfu sé rangt. Við erum þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegir þættir í dýrabúskap eins og innilokun, tæknisæðing og ferð í sláturhús séu ekki velferð. Þess vegna tölum við fyrir vegan lífstíl og vinnum fyrst og fremst að því að minnka eftirspurn eftir dýraafurðum. Samtökin stefna að því að stofna dýraathvarf að erlendri fyrirmynd þar sem húsdýr geta lifað ævi sína til enda í sátt við manninn. Sjá www.farmsanctuary.org
Er veganismi öfgakenndur?
Nei, það sem er öfgakennt er að rækta dýr, loka þau inni og slátra þeim að óþörfu. Jafnframt má segja að það sé öfgakennt að neyta dýraafurða sem eyðileggja bæði heilsu okkar og jörðina að óþörfu.
Ásamt stjórn koma fjölmargir sjálfboðaliðar að starfi samtakanna.
Vilt þú aðstoða samtökin? Hafðu samband við okkur! [email protected].