Dýravernd
Heimildamyndir
Upplýsingar um aðstöðu dýra á Íslandi
Neysla dýraafurða
Hér er sýndur aðbúnaður húsdýra á Íslandi.
Sölvi Tryggvason
Sölvi Tryggvason rannsakar aðstæður svína og kjúklinga á Íslandi.
Sölvi - seinni hluti
Sölvi Tryggvason rannsakar aðstæður svína og kjúklinga á Íslandi.
Hvernig hafa dýrin það?
Sif Traustadóttir fyrrum eftirlitsdýralæknir lýsir aðstæðum í verksmiðjubúskap á Íslandi.
Dýrasiðferði
Áhrifamikil ræða Gary Yourofsky um aðstæður dýra.
Botnvörpur
Hvaða áhrif hafa botnvörpuveiðar íslendinga á vistkerfi sjávar.
Hvalveiðar við Ísland
Siðferðisspurningar varðandi hvalveiðar. Nánari upplýsingar hjá www.hardtoport.org
Lífríkið í sjónum
Ofveiðar og mengun sjávar hafa skelfilegar afleiðingar fyrir líf á jörðinni.
Vegan fyrir dýrin
Dýr eru skyni gæddar verur sem finna til
Húsdýr eru skyni gæddar verur sem hafa tilfinningar og mynda náin tengsl við önnur dýr þegar þau fá tækifæri til þess. Þau hafa mismunandi persónuleika og hafa gaman af því að leika sér, rétt eins og gæludýr. Þau finna ekkert síður til en við mannfólkið og vilja lifa í friði. Húsdýr geta ekki varið sig eða tjáð þarfir sínar svo að vel skiljist. Þau lifa við innilokun, tæknisæðingar, geldingar, skort á læknaþjónustu og það að missa afkvæmi sín reglulega í sláturhús. Því miður eru langflest íslensk húsdýr alin í verksmiðjubúum. Veganismi er mest vaxandi réttindabarátta sem háð er í heiminum í dag.
Verksmiðjubúin á Íslandi
Dýrin í verksmiðjubúum (svín og hænsni) eru alin í þröngum skemmum þar sem eðlislægar þarfir þeirra eru hafðar að engu. Þau fara ekki út, sjá ekki sólarljós og anda ekki að sér fersku lofti. Þau geta ekki hreyft sig á eðlilegan hátt eða gengið um. Þau sofa ekki í bæli heldur á steingólfi eða grindum. Eftirlitsdýralæknar hafa reglulega tilkynnt um beinbrot og dritbruna kjúklinga án þess að neitt hafi verið aðhafst. Árið 2014 fundu eftirlitsaðilar legusár á gyltum á öllum svínabúum sem heimsótt voru.
Íslenskt svínakjöt, kjúklingur og egg koma nær eingöngu frá verksmiðjubúum
Á Íslandi er ekki auðsótt mál að finna svínakjöt, kjúkling eða egg sem hafa verið alin við aðrar aðstæður en í verksmiðju. Orðin „vistvænt“, „frjáls“ og „beint frá býli/bónda“ tryggja ekki að aðstæður dýranna hafi verið góðar. Í flestum tilfellum er um að ræða dýr sem eru innilokuð alla ævi. Vissir þú að langflest dýr sem alin eru í matvælaframleiðslu á Íslandi koma úr verksmiðjubúum?
Íslenskt svínakjöt
Svínin eru alin í lokuðum skemmum og sjá ekki sólarljós. Gyltan er sædd reglulega og höfð í búri á hörðu gólfi (e. Gestation Crate) í þrjá mánuði í einu, þar sem hún getur ekki snúið sér við. Skömmu áður en hún gýtur er gyltan flutt í gotstíu þar sem hún getur heldur ekki snúið sér við né sinnt grísunum sínum. Grísirnir sjúga spena í gegnum rimla í rúmlega 20 daga. Dýrunum eru gefin breiðvirk sýklalyf sem eiga þátt í að skapa svokallaðar ofurbakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Nú þegar hafa orðið dauðsföll af völdum svínabaktería í Danmörku. Grísunum er slátrað og búnar til pylsur, skinka og beikon. 5 til 7 dögum eftir að grísirnir eru teknir er gyltan sædd aftur og leidd inn í búrið. Þegar gyltan hættir að geta alið grísi er henni slátrað. Nýlega var bannað að gelda grísi án deyfinga og verkjastillinga á Íslandi en verksmiðjubúin mótmæltu meðal annars í fjölmiðlum og vildu halda því áfram. Um 80 þúsund svínum er slátrað árlega.
Íslenskur kjúklingur
Íslenskir kjúklingar eru líka aldir á gólfi í vöruskemmum því þeir koma eingöngu frá verksmiðjubúum. Allt að 18 kjúklingar hrúgast á hvern fermetra og er því þröngt um þá. Kjúklingurinn hefur verið ræktaður til að stækka óeðlilega hratt og mikið. Stærðin veldur því að þeir eiga erfitt með gang og þeir þjást af hjartasjúkdómum. Líftími fuglanna er um það bil 5 vikur fram að slátrun. Sumir fuglanna deyja fyrr úr ýmsum kvillum. Eftirlitsdýralæknar hafa ítrekað tilkynnt um dritbruna á fótum fugla og beinbrot. Dritbruni er þegar kúkurinn veldur brunasárum, oftast á tám og fótum. Ammóníaksstækjan í búinu er megn og særir lungu bæði fugla og starfsmanna. Dauðastundin í sláturhúsinu er hrollvekjandi. Þegar komið er að slátrun er kjúklingunum raðað í kassa og þeir keyrðir í næsta sláturhús. Í sláturhúsinu eru þeir hengdir upp á fótunum á færiband. Færibandið dýfir höfðum þeirra í vatn sem gefur þeim raflost til að þeir missi meðvitund. Starfsmaður fylgist með og sker þá fugla sem ekki fengu raflost. Þarnæst fer færibandið með fuglinn að hnífavél þar sem höfuðin eru hoggin af. Í maí 2014 greindi eftirlitsstofnun EFTA frá því að í báðum sláturhúsunum sem þau heimsóttu var rafstraumurinn of lágur til að fuglarnir misstu meðvitund fyrir slátrun. Það stendur til að leyfa verksmiðjubúum að höggva framan af goggum fuglanna, sem myndi aðeins auka á þann hrylling sem nú þegar fer fram í verksmiðjubúskap. Árið 2013 var 4.957.270 alifuglum slátrað á Íslandi.
Íslensk egg
Yfir 80% varphæna á Íslandi eru aldar í búrum sem þykja svo óhugnanleg að þau eru bönnuð í Evrópusambandinu. Fjórar hænur eru saman í búri uppi í hillu og hver þeirra hefur pláss á stærð við A4 blað. Búrunum er staflað í um þrjár hillur, svo að hægt sé að koma sem flestum hænum fyrir. Þær standa á vírneti svo að þær verkjar í fæturna mestalla ævina. Maturinn kemur til þeirra á færibandi og eggjum og driti er safnað með aðskildum færiböndum. Ekki er gert ráð fyrir að hænan gangi um eða rétti úr vængjunum. Hænurnar verða stressaðar og eirðarlausar í þessum litlu búrum svo þær gogga í hver aðra þar til fjaðrirnar byrja að detta af þeim. Einnig eru til svokölluð „skúregg“ þar sem hænurnar eru hafðar í miklum þrengslum á gólfi í lokuðum skúr. Þegar hænan nýtist búinu ekki lengur er hún send í sláturhús, oftast eftir tvö til þrjú ár. Hænur og hanar í eggjaiðnaði koma í heiminn móðurlaus í útungunarvél. Fljótlega eftir klakið flokkar starfsmaður á búinu ungana í karlunga og kvenunga. Karlungarnir eru kæfðir með gasi því þeir nýtast ekki á eggjabúum. Þeir koma i heiminn eingöngu til að vera hent í ruslið af því þeir geta ekki verpt eggjum.
Hvað með lambakjötið?
Kindur eru líka haldnar í lokuðum rýmum stóran hluta af árinu og er löglegt lágmarkspláss í fjárhúsum um 0,7m² á kind. Þrátt fyrir að okkur finnist sauðkindin það þjóðlegasta sem til er, þá er hún innflutt og lifir ekki af á norðlægum slóðum. Því miður á sauðfé sér engan málsvara. Þau eru ekki í verkalýðsfélagi og geta hvergi beðið um hjálp þegar eitthvað fer úrskeiðis. Lýsandi dæmi um þetta er þegar nágrannar tilkynntu ítrekað um dýraníð (vanfóðrun og vanhirðingu) á bænum Stórhóli yfir tíu ára skeið. Afleiðingarnar fyrir bóndann voru engar. Kjötið fór í búðirnar og bóndinn hélt áfram að þiggja landbúnaðarstyrk. Í september 2012 urðu 10.000 kindur og lömb úti (drápust) í snjóbyl, því ekki náðist að smala þeim í tæka tíð. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fullyrðir að spáð hafi verið fyrir um óveðrið með góðum fyrirvara en samt sem áður fór sem fór. Það er mikil ábyrgð að sinna dýrum og þegar eitthvað fer úrskeiðis geta afleiðingarnar verið alvarlegar fyrir dýrið. Árið 2013 var 590.651 kindum slátrað á Íslandi (meirihlutinn lömb).
En mjólkin?
Kýr, eins og konur, mjólka aðeins eftir að þær hafa eignast afkvæmi. Þær ganga með kálfinn í níu mánuði og hafa kálfinn á spena í um það bil 4 mánuði. Í búskap er kýrin tæknisædd (handleggur inn í endaþarm upp að olnboga og málmpípa í leggöng) og kálfurinn er tekinn af henni eftir aðeins nokkra daga svo að hægt sé að mjólka hana. Kýr sakna kálfanna og kalla á þá í einhvern tíma eftir að þeir eru teknir frá móður sinni. Kálfurinn fær mjólkurduft og mjólk sem er ekki hæf til sölu, til dæmis mjólk af kúm sem eru lasnar eða á lyfjum. Kálfunum er síðan slátrað til manneldis, nema að til standi að gera hann að mjólkurkú. Kúm er venjulega slátrað á meðan þær eru ennþá ungar, um 4-6 ára. Þegar kýrin mjólkar ekki eins mikið og bóndinn telur sig þurfa er hún send í sláturhús. Full ævi nautgripa er um 16-20 ár, en þeim er slátrað mun fyrr. Kýr hafa lagalegan rétt til að fara út í um 8 vikur á ári en árið 2011 fengu 9 bændur áminningu fyrir að hleypa kúnum sínum ekki út það árið. Afleiðingarnar fyrir bændurna voru engar.
Af hverju að forðast fisk?
Sýnt hefur verið fram á að fiskar hafa sársaukaskyn. Flestir fiskar lifa frjálsir en dauðdagi þeirra er sársaukafullur. Þeir eru ýmist veiddir á öngul eða í net þar sem þeir kremjast þar til þeir eru dregnir upp á yfirborðið og kafna. Magi og augu djúpsjávarfiska þenjast út þegar þeir eru dregnir upp á yfirborðið í minni þrýsting. Botnvörpur (43% afla á Íslandi) skrapa botninn og fiskarnir synda á undan þar til þeir gefast upp og lenda í netinu. Flestir veiddir fiskar deyja því hægum sársaukafullum dauðdaga. Önnur vandamál hvað varðar fiskveiði eru ofveiði og mengun sjávar. Nú þegar höfum við mengað og eyðilagt stóran hluta heimkynna fiska.
Fiskar í fiskeldi lifa við mikil þrengsli og hættu á sjúkdómum. Lax er ránfiskur sem étur aðra fiska. Til að framleiða eitt kg af laxi í fiskeldi þarf að meðaltali 5 kg af villtum smáfiski. Oftast er smáfiskurinn fenginn frá fátækari löndum sem gætu nýtt fiskinn betur. Athugið að nánast allur lax sem seldur er í íslenskum stórmörkuðum kemur úr fiskeldi. Fiskar fá Omega 3 fitusýrur úr sjávarplöntum, þess vegna inniheldur feitur fiskur þessa mikilvægu fitusýru. En Omega 3 má einnig fá úr valhnetum, chia fræjum, hörfræjum og þara.
Hvernig eru minkabúin á Íslandi?
Minkar á loðdýrabúum á Íslandi búa við algjöra frelsissviptingu. Þeir eru í vírnetsbúri, fara aldrei út undir bert loft og hafa engan aðgang að sundvatni. Samkvæmt núgildandi reglugerð um aðbúnað og meðferð minka og refa (165/2007) er leyfð búrastærð fyrir minka 30x70 cm að gólffleti fyrir hvert dýr. Til samanburðar má nefna að minkur í náttúrunni tileinkar sér jafnan svæði af stærðinni 0.5 – 6 km2. (heimild www.velbu.is)
Fjöldi dýra sem slátrað var á Íslandi árið 2015
Yfir sex milljónir dýra
5.072.017
Alifuglar
600.107
Kindur
80.342
Svín
48.910
Gæsir
33.339
Rjúpur
33.177
Lundar
18.966
Naut
7.739
Hross
1.317.214 tonn
Sjávardýra
2.571
Minkar
1.291
Hreindýr
155
Langreyðar
Ásamt stjórn koma fjölmargir sjálfboðaliðar að starfi samtakanna.
Vilt þú aðstoða samtökin? Hafðu samband við okkur! [email protected].