Samtökin sendu inn umsögn vegna „Ræktum Ísland!", þið getið kynnt ykkur verkefni ríkisstjórnarinnar hér:
Á þessum tímum þar sem mannkynið þarf að endurhugsa öll þau kerfi sem það býr við vegna ýmiss konar umhverfisvár er mjög mikilvægt að setja fram landbúnaðarstefnu sem tekur mið af þeim stóru breytingum sem eru og munu verða á samfélagi manna. Sú stefna verður að vera mjög framsækin og taka mið af nýjustu rannsóknum um nútímalega búskaparhætti og áhrif búskapar á umhverfi og náttúru.
Þau viðmið sem lögð eru fram til grundvallar stefnunni eru góð og gild. Það er að segja: loftslagsmál/umhverfi, tækni/nýsköpun og landnýting. Tækifærin sem stefnan hefur til að gera landbúnað á Íslandi framsækinn og í takt við nýja strauma í landbúnaði og fæðuframleiðslu eru þó alls ekki nýtt sem skyldi.
Samtök Grænkera gagnrýna sérstaklega að ekki eru gerðar neinar raunverulegar tilraunir í stefnunni til þess að ýta undir framleiðslu á plöntum til manneldis þó ítrekaðar rannsóknarniðurstöður sýni að það sé sá landbúnaður hefur langlægst kolefnisspor. Enginn sérstakur kafli er um þetta þrátt fyrir að framleiðsla á Íslandi á plöntum sé langt frá því að anna eftirspurn og grænmetisframleiðsla í tonnum talið hafi m.a.s. dregist saman frá 1996 og innflutningur þrefaldast.
Þá telja Samtök grænkera að mikið ósamræmi sé á milli kafla skýrslunnar. Í kaflanum um dýravelferð er talað um að hlífa eigi dýrum við þjáningu og vanlíðan en hvergi er vikið að því að útrýma verksmiðjubúskap eins og svína-, kjúklinga- og minkarækt á Íslandi. Þessar búgreinar eru hins vegar sérstaklega taldar upp í undarlegum kafla um kornrækt þar sem rætt er um mikilvægi kornræktar fyrir svín og kjúklinga. Það er bersýnilegt að áherslan á velferð dýra er lítil sem engin.
Við státum okkur af því að vera með sérstök lög um dýravelferð en okkar mat er að markmiðum þeirra laga hafi aldrei verið náð hér á landi. Markmið laganna er orðrétt „að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“.
Verksmiðjubú og fjölgun þeirra hér á landi eru til háborinnar skammar. Þessu þarf að breyta, lögin þarf að endurskoða og skýra og tryggja að dýr hér á landi geti raunverulega sýnt sitt eðlilega atferli, farið út undir bert loft og geti nært, verndað og sinnt sínu ungviði á þann hátt sem þeim er eðlislægt.
Mikil losun gróðurhúsalofttegunda frá búfé, sérstaklega jórturdýrum, hefur margoft verið staðfest. Auk þess eru kostir grænkerafæðis með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda og markvissari og betri landnýtingar óumdeildir. Ræktum Ísland! stefnan fellur algjörlega á eigin prófi um loftslagsmál þegar engar tilraunir eru gerðar til að taka á því sem blasir við að verður að vera ein af meginaðgerðunum þegar kemur að samdrætti í losun: fækkun gripa. Það er mjög óábyrgt að taka ekki á því hvernig Ísland ætlar sér að breyta landbúnaði í takt við nauðsynlega þróun og hvernig á að tryggja sömu verðmætasköpun frá framleiðslu þar sem búfé er í minnihluta. Bændum er enginn greiði gerður með því að yfirvöld stingi höfðinu í sandinn hvað þetta varðar.
Losun frá landbúnaði er um 20% af þeirri losun sem Ísland ber ábyrgð á gagnvart Parísarsamkomulaginu. Inni í þeirri tölu er ekki losun frá landi eins og losun frá framræstu votlendi (hvort sem það er ónýtt, nýtt sem beitiland eða til túnræktar) eða illa förnu beitilandi. Tæpur helmingur losunarinnar kemur frá iðragerjun jórturdýra og tæpur helmingur frá áburðargjöf á tún. Með því að skipta yfir í framleiðslu á plöntum til manneldis og ýta undir og stuðla að neyslu á þessum vörum með sama hætti og stuðlað er að neyslu á dýraafurðum væri hægt að spara gríðarlega í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. Mun minna land þarf til þess að framleiða eitt gramm af próteini til manneldis úr plöntum heldur en kjöti og þar af leiðandi þarf oftast minni áburð. Nýting á fæði er einnig mun betri þegar plönturnar eru borðaðar beint heldur en þegar þær eru fyrst gefnar dýrum og dýrin svo borðuð.
Það þarf að styðja við þróunarvinnu og rannsóknir til þess að auka framleiðslu á plöntum til manneldis á Íslandi og það er sorglegt að landbúnaðarstefnan taki ekki á þessu svo neinu nemi, sérstaklega í ljósi þess að augljóst er að mannkynið verður að draga verulega úr neyslu á dýraafurðum.
Stjórn Samtaka grænkera telur að um allt of metnaðarlausa og gamaldags stefnu sé að ræða þar sem ekki hefur verið tekið raunverulega á þeim áskorunum sem blasa við í landbúnaði í heiminum öllum sem og á Íslandi. Þetta sést á því að engar tilraunir eru gerðar til að bregðast við óhjákvæmilegri fækkun gripa, ekki er tekið á því hvernig auka á hlut plantna í íslenskri landbúnaðarframleiðslu eða hvernig bæta á úr hræðilegum aðbúnaði dýra í þauleldi á Íslandi.
Það er því mat stjórnar Samtaka grænkera að stefnan sé langt frá því að vera tilbúin og að við áframhaldandi vinnu þurfi að leita til fleiri aðila sem starfa á sviði plönturæktar og taka mið af niðurstöðum nýlegra umfangsmikilla rannsókna á sjálfbærri matvælaframleiðslu, framkvæmdum af alþjóðlegum stofnunum og Evrópusambandinu. Í núverandi mynd gagnast stefnan ekki til þess að undirbúa íslenska bændur undir þær samfélagslegu breytingar sem eru óhjákvæmilegar.
Við viljum sjá mun metnaðarfyllri markmið af hálfu stjórnvalda. Það þarf að stuðla að minni neyslu dýraafurða og meiri framleiðslu grænkerafæðis, með tilheyrandi rannsóknum og nýsköpun.
Gerum betur!
Virðingarfyllst,
Stjórn Samtaka grænkera á Íslandi
Heimildir:
2. https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(18)31788-4/fulltext
3. Með verksmiðjubúskap er átt við að dýr eru alin innandyra allan líftímann, í þéttskipuðu rými með fjölmörgum öðrum dýrum.
4. https://www.althingi.is/lagas/147/2013055.html
5. https://ust.is/loft/losun-grodurhusalofttegunda/
6. https://ourworldindata.org/environmental-impacts-of-food
7. https://eatforum.org/eat-lancet-commission/