Sent á Umhverfisstofnun [email protected]
Mál nr. UST202012-092
Umsögn Samtaka grænkera á Íslandi vegna starfsleyfis Ísteka til aukinnar blóðtöku fylfullra mera.
Samtök grænkera á Íslandi leggjast alfarið gegn því að Ísteka verði veitt starfsleyfi til aukinnar framleiðslu lyfjaefnis sem gert er með blóði fylfullra hryssa.
Tillagan kemur fram á sama tíma og mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um ágalla iðnaðarins. Fram að því hafði lítið verið rætt um starfsemina opinberlega og lítil vitneskja í samfélaginu um hvað á sér raunverulega stað í þessum iðnaði.
Samtök grænkera harma það dýraníð sem sést hefur á upptökum erlendra dýraverndarsamtaka að eigi sér stað við blóðtöku. Við teljum að þessi iðnaður sé smánarblettur á íslensku samfélagi. PMSG/eCG hormónið sem fæst við blóðtöku fylfullra hrossa er fyrst og fremst notað í þauleldi svína, til þess að gyltur gjóti sem flestum grísum með eins stuttu tímabili og hægt er, í þeim tilgangi að auka framleiðni á svínakjöti. Blóðmerahald ógnar því bæði velferð hesta og svína.
Nú þegar eru 5.400 blóðmerar á Íslandi. Flest ríki hafa bannað þennan iðnað og það er góð ástæða fyrir því, þetta þykir óafsakanleg meðferð á dýrum. Það eru einungis 5 ríki í heiminum sem leyfa þetta og það er í skoðun hjá Evrópuþinginu að banna innflutning á hormóninu til ríkja Evrópusambandsins vegna þess að notkun þess í svínaeldi brýtur í bága við lög um dýravelferð.
Það er ljóst að þegar kemur að blóðmeraiðnaði eins og öðru dýraeldi þá er nær ógerlegt fyrir MAST að sinna reglulegu eftirliti nú þegar og óafsakanlegt að leggja það á fleiri dýr að vera sett í þessar óöruggu aðstæður.
Gleymum því ekki að á bak við þessi 20 kg af lyfjaefni gætu orðið allt að 20.000 hryssur og frá þeim yrðu tekin 20.000 folöld árlega.
Það fer algjörlega gegn þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu og á Alþingi að undanförnu að samþykkja þetta leyfi. Iðnaður á borð við blóðmerahald gjaldfellir gjörsamlega lög okkar um velferð dýra (lög nr. 55/2013). Við leggjumst því alfarið á móti starfsleyfinu.
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir og Valgerður Árnadóttir fyrir hönd Samtaka grænkera á Íslandi