Return to site

Umsögn SGÍ vegna fyrirhugaðrar stækkunar Stjörnueggs 

Umsögn SGÍ vegna tillögu Skipulagsstofnunar þess efnis að auka við fjöldaframleiðslukerfi Störnueggs

Samtök grænkera á Íslandi leggjast heilshugar gegn þeirri áætlun að stækka fjöldaeggjaframleiðslu Stjörnueggs úr 50.000 fuglum upp í 95.000 fugla. Hvaða ástæður sem liggja að baka slíkri framkvæmd eru ekki byggðar á góðum rökum. Ein hugsanleg rök með slíkri framkvæmd væri ef mannkyninu stafaði ógn af minnkandi eggjaframleiðslu til manneldis, en því fer fjarri sanni. Þessi framkvæmd snýst um að viðhalda og auka við hag örfárra á kostnað margra. Fyrir utan fuglana sem þurfa að líða óþolandi aðstæður þá er þessi framkvæmd í beinni samkeppni við smærri framleiðendur og bændur þar sem að líf hænsnanna er mun bærilegra en það sem þekkist í verksmiðjum Stjörnueggs. Það er mikið í húfi að þetta verði ekki að veruleika.

Það eru engin góð rök fyrir að auka þann fjölda fugla sem þurfa þola þéttbæra fjöldaframleiðslu eggja í okkar þágu. Það eru til mun mannúðlegri aðferðir til þess að framleiða egg til manneldis. Við ættum að stemma stigu við neyslu eggja þar sem stuðst er við þauleldi og stuðla frekar að framleiðsluháttum þar sem er sýndur raunverulegur metnaður til þess að taka tillit til hagsmuna fuglanna. Starfsemi Stjörnueggs er skilgreind sem þauleldi og talað um hana sem slíka í tillögunni, en aðstæður dýra sem þurfa að búa við þauleldi eru forkastanlegar og er lítið sem ekkert tillit tekið til hagsmuna dýranna.

Skoðum aðeins þessar tölur fyrir þessa eggjaverksmiðju. 95 þúsund fuglar sem lifa að meðaltali um 15 mánuði. Sem losa 3500 tonn af hænsnaskít á ári. Fyrir utan að skíta þá verpa þessar hænur mörgum tonnum af eggjum, léttilega 1500 tonnum á ári. Það þýðir að það fer eitthvað meir en 5000 tonn í fóður á ári fyrir þessa fugla. Hvaða fóður er það og hvaðan kemur það? Er fóðrið erfðabreytt og inniheldur það sýklalyf? Svo er það þessi fjöldi fugla; nítíu-og-fimm þúsund. Þetta þýðir, að jafnaði, að „farga“ þurfi um 95 þúsund karlkynsungum á 15 mánaða fresti sem eru óþarfir í þessum iðnaði. Restin, þúsundir hæna hljóta þau örlög að hanga í sama þrönga rýminu; innilokaðar í gluggalausum byggingum, og er mikið af lífsferlum þeirra stjórnað af þar til gerðum ljósakerfum. Þær fá aldrei að fara út. Fara í rykbað. Kalsa á priki.

Fyrir utan matinn sem þær borða og skítinn sem þær skilja eftir sig þá kemur að því að losa sig þurfi við fuglana sjálfa en í tillögunni segir:

Heildar dvalartími fugla í húsum á Vallá er um 60 vikur og þá lýkur hverri eldislotu. Að henni lokinni er hræjum fuglanna komið til urðunar hjá Sorpu bs.

Hversu mörg tonn af dýrahræjum felst í þessari „urðun“ á ári hverju? Það kemur ekki skýrt fram í skýrslunni en miðað við fjölda fugla þá hlýtur að vera um að ræða hundruðir tonna á ári.

Í umhverfismati Eflu Verkfræðistofu er ekki minnst orði á fóður fyrir fuglana, hvaðan það kemur og hvaða umhverfisáhrif ræktun þess og flutningur komi til með að hafa. Né heldur er minnst á hvort, og þá að hvað miklu leyti, fóðrið er bætt með sýklalyfjum. Í matinu kemur ekki fram hversu stórt hlutfall fuglanna kemur til með að deyja vegna þeirra öfgafullu aðstæðna sem þeim er búin áður en þau eru send til slátrunar um 15 mánaða aldur. (Það er þekkt í þéttbærri eggjaframleiðslu að fuglarnir deyi vegna einskærs álags og nái ekki einu sinni að þrauka fram á 15 mánaða aldur þegar þeir eru sendi til slátrunar, en náttúruleg lífsævi hænsna spannar vel yfir 7 ár. Og þetta er þrátt fyrir notkun sýklalyfja. Í stórum búum sem þessum má hæglega gera ráð fyrir að á hverju ári komi hundruðir, jafnvel þúsundir, fugla til með að deyja langt fyrir aldur fram úr streitu.)

Það hefur lengi verið bent á hversu slæmur aðbúnaður fyrir varphænur batteríbúrin eru. Og hefur notkun þeirra minnkað, og takmörkun og endalok á notkun þeirra hefur verið staðfest í lög. En það að hætta að framleiða hænur margar saman í þröngum búrum og þess í stað að framleiða þær í þúsundatali í sama þrönga rýminu er aumkunarverð tilraun til málamynda og ætti ekki að vera liðin.

Hænur, og sér í lagi varphænur, hafa verið rannsakaðar nokkuð ítarlega. Þeim líður vel þegar þær geta goggað í jörð og flögrað vængjunum. Þær hafa náttúrulega þörf fyrir að fara í rykbað og tilla sér á prik. Þær vilja verpa í friði og finnst best að vera í hóp sem telur færri en hundrað. Aðstæður á þauleldis verksmiðjubúum eru þess eðlis að hænurnar geta ekki sýnt nátturulegt atferli. Áætlun um að Stjörnuegg auki framleiðslu sína um 45 þúsund fugla þýðir eingöngu það að á hverri stundu eru hagsmunir 45 þúsund fleiri fugla virtir að vettugi.

broken image

Fyrirhuguð stækkun á fjöldaframleiðslukerfi Stjörnueggs er réttlætt sem tilraun til þess að komast til móts við aukna eftirspurn eftir eggjum. Þó er ekki ljóst að eftirspurn eftir eggjum sé að aukast né að nokkuð sem geti talist sem nokkurskonar skortur á eggjum þekkist í samfélaginu. Við teljum að þessi ástæða sé fyrirsláttur og að helsta markmið Stjörnueggs með framkvæmdinni sé að sölsa undir sig stærra hlutfalls eggjaviðskipta og bjóða upp á egg á sem minnsta verði fyrir viðskiptavini. Smærri eggjabændur geta ekki staðið í samkeppni við þessa framleiðsluhætti. Ef verkefnið verður samþykkt þá verður það enn eitt dæmi þess hvernig verksmiðjubúskapur bolar út smærri heilnæmari búskap.

Í umhverfismati Eflu Verkfræðistofu er gert lítið úr þeim áhyggjum sem gætu stafað af lyktar-, vatns-, og sjónmengun vegna fyrirhugaðra stækkunar á framleiðslu Stjörnueggs. Skautað er yfir þann fjölda fugla sem þarf að „farga“ á hverju ári, vegna karlkynsunga sem eru ónauðsynlegir, þeirra fugla sem falla undir álagi, og þeirra fugla sem að endingu þarf að endurnýja til þess að viðhalda afkastagetu verksmiðjunnar. Ekki er lagt á umhverfismat sem felst í að framleiða fóður fyrir fuglanna.

Eins og tekið er fram í tillögunni þá felst í framleiðslunni sýkingarhætta

Sýkingarhætta á eggjabúum stafar af sjúkdómum sem komið geta upp í fuglunum. Sérstakt eftirlit er haft með sýkingum sem geta beint eða óbeint smitast milli manna og dýra og þannig ógnað bæði matvælaöryggi og lýðheilsu manna. Einna þekktustu sjúkdómsvaldar í matvælaframleiðslu eru salmonella og kampýlóbakter.

Annarsstaðar í skýrslunni er tekið fram að engir mannabústaðir, vinnusvæði eða útivistarsvæði megi vera innan 100 m radíus frá verksmiðjunni. Hvers vegna ættum við að gangast í framkvæmdir stafar hætta af, sem eykur sýkingarhættu og eykur notkun sýklalyfja?

Þó það sé ekki í verkahring verkfræðistofu sem falið er að gera umhverfismat að velta upp siðferðislegum álitamálum þá má spyrja sig hvers vegna að svo sé ekki. Hví er það svo að viðfang verkfræðilegs mats á framkvæmdum sem þessum setji sig hljóðan þegar það kemur að siðferðislegum álitamálum mörg þúsunda fugla sem ætlaðir eru til þauleldis ár hvert? Ef hægt að er besta fjárhagslegan gróða og gera tilraunir til þess að takmarka slæm umhverfisáhrif, hvers vegna er þá ekki hægt að velta upp siðferðislegum álitamálum fyrir dýrin sem eiga í hlut og taka það með í reikninginn? Málið er að það er vel hægt. En það er aldrei gert. Á einum stað í skýrslunni er minnst á að aðstæðurnar bætist til muna, en eingöngu fyrir mannfólk sem þarf að sjá um að þrífa:

Að auki bætir þetta aðstöðu til muna, t.d. hvað varðar þrif.

Samtök grænkera á Íslandi mótmæla því harðlega að fjöldi dýra í þauleldi sé að aukast þegar þeim ætti réttilega að fara fækkandi. Egg eru engin nauðsynjavara sem krefst þess að þau séu framleidd á þann hátt að þau séu sem ódýrust. Slík framleiðsla mun eflaust verða til þess að fáeinir einstaklingar komi til með að hagnast fjárhagslega, en hún mun koma sér illa við smærri framleiðendur og fyrir varphænurnar sem munu, ef að framkvæmdinni verður, telja milljónir þegar fram líða árin.

Virðingarfyllst,

Stjórn Samtaka grænkera á Íslandi