Í gærkvöldi sýndu Samtök grænkera á Íslandi heimildamyndina Slay í Bíó Paradís. Myndin kafar ofan í hvaða áhrif notkun á dýraskinnum hefur á fólkið sem vinnur við iðnina, plánetuna og síðast en ekki síst dýrin sjálf. Myndin fer einnig inn á hvernig tískuiðnaðurinn stundar massífan grænþvott og hvernig við sem samfélag höfum allt of lengi kosið að horfa í hina áttina. Þetta er ein af þessum myndum sem ég trúi ekki að láti neinn ósnortinn. Tárin flæða og hnefarnir kreppast, enda mannskeppnan forrituð til að hafa samkennd. Hvernig getur mannleg sál ekki brugðið þegar hún sér hvaða áhrif eiturefnin við sútun hefur á verkamenn og umhverfið, þegar hún uppgötvar að iðnaðurinn hefur bein áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar, þegar hún sér svart á hvítu hve mikil gróðurhúsaáhrif hann hefur og þegar hún horfir í skelfingu lostin augu litlu loðboltanna sem aldrei hafa kynnst öðru en einangrun í þröngu búri.
En hvað svo? Samfélagið okkar er svo djúpt sokkið í hringrás neysluhyggju og gerviþarfa þar sem peningaöflin stjórna öllu að allir tilraunir til umbóta sem ekki henta þeim eru helvítinu erfiðari. Með markaðssetningu erum við heilaþvegin til að finnast við þurfa að eiga ákveðnar vörur því þær geri okkur að einhverju leyti meira töff, aðlaðandi eða voldug. Í þessu tilviki vörur sem er sáraeinfalt að framleiða á margfalt umhverfisvænni vegu og án þess að kvelja nein dýr. Hvort sem það er með því að minnka neysluna eða með því að velja annars konar efnivið til að skreyta okkur með. Það er sannarlega skrítin forgangsröðun að eyða trilljónum í grænþvott í stað þess nota þær í hönnun og framleiðslu á umhverfis- og dýravænni vörum.
Stundum þegar maður hugsar um skaðan sem mannskepnan hefur valdið jörðinni og öðrum dýrategundum þá veltir maður fyrir sér hvers vegna við gátum ekki bara haldið áfram að vera apar í skóginum. En það er önnur spurning sem er kannski þess virði að íhuga betur. Hvers vegna gátum við ekki bara drullast til að vera ekki fávitar og nota allt þetta hugvit og alla þessa samkennd okkar til góðs fyrir öll dýrin í skóginum en ekki bara fyrir okkur sjálf?
Hér má sjá stiklu fyrir Slay en myndin auk þess er hægt að nálgast myndina inn á WaterBear, iTunes og Amazon prime.
Guðný Þorsteinsdóttir