Grænkerum (vegan fólki) fer sífjölgandi í heiminum og þar eru Íslendingar sannarlega ekki að draga lappirnar. Heyrst hefur að hér á landi sé heldur hátt hlutfall grænkera, samanborið við önnur lönd. Verslanir bjóða sífellt upp á meira magn af allskyns grænkerafæði og eftirspurnin leynir sér ekki.
Fólk gerist vegan af ýmsum ástæðum en þar má til dæmis nefna siðferðilegar, heilsufarslegar og umhverfislegar ástæður. Aðgengi að fjölbreyttu fæðuúrvali gerir það tiltölulega auðvelt að verða grænkeri og í dag er það mun raunhæfari kostur en áður fyrr.
Við vitum öll að án dýranna hefðum við Íslendingar líklega aldrei lifað af. Mjólkin, kjötið og aðrar dýraafurðir voru okkur lífsnauðsynleg næring sem ekki var auðveldlega hægt að sneiða framhjá, en í dag er öldin önnur. Matvörubúðir eru fullar af hollum og góðum mat sem ekki kemur úr dýraríkinu. Raunar óhollum mat líka, ef því ber að skipta.
Við vitum það líka í dag að mjólkin er ekki alveg jafn holl og við töldum hér áður fyrr, auk þess er auðvelt að finna henni umhverfisvænni staðgengil. Margt hefur breyst í landbúnaði og dýr eru fyrst og fremst alin upp til manneldis á sem hagkvæmasta máta. Það sem er hagkvæmast fyrir okkur er þó ekki endilega farsælast fyrir dýrin. Á Íslandi komumst við til dæmis að því nýverið að legusár fundust á svínum í ansi mörgum svínabúum landsins. Auk þess kolféll ímynd okkar um hamingjusömu hænuna þegar Kastljós tók Brúneggjaumræðuna fyrir á svo eftirminnilegan hátt.
Hvað nú?
Á viðburðinum Mataræði og mannréttindi verður leitast eftir því að svara spurningunni „Ættu ríki og sveitarfélög að stuðla að neyslu almennings á grænkerafæði?“ Því og fleiru verður svarað af fólki úr ábyrgðarstöðum ríkis og sveitarfélaga.
Höfundur er félagsfræðingur.
Birtist á vísi 29.1.2019