Reykjavík, 15. mars 2022
Undirrituð samtök harma hræðilegt mengunarslys í kjölfar olíulekans á Suðureyri 4. mars síðastliðinn.
Við krefjumst þess að verkferlar og viðbragðsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Umhverfisstofnunar og Orkubús Vestfjarða tengt mengunarslysum verði bættir og rannsókn verði gerð á málinu.
Við teljum að seinagangur, vanmat og röð rangra ákvarðana hafi valdið óþarfa dauða hundraða æðarfugla sem hefði verið hægt að bjarga ef hreinsunarstarf og björgunaraðgerðir hefðu farið af stað um leið og lekans varð vart í samræmi við vel undirbúnar viðbragðsáætlanir.
Við lýsum eftir útskýringum á því hvers vegna ekki var hafist handa um leið og lekans varð vart og hvers vegna ákveðið var að aflífa friðaða fugla, sem íbúar höfðu bjargað, viku eftir slysið þvert á ráðleggingar sérfræðinga í fuglabjörgun.
Við krefjumst þess að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, láti rannsaka hvað fór þarna úrskeiðis og komi á viðbragðs- og aðgerðaáætlun um björgun dýra vegna olíuleka og annarra mengunarslysa sem fyrst svo koma megi í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig.
Æðarfugl er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Æðarfugli hefur fækkað mikið frá árinu 2000 á mikilvægum vetrarstöðvum í Eystrasalti og raunar víða í Evrópu, einkum vegna ofveiði á fæðudýrum æðarfugls, mengunar, truflunar og veiða. Hann er því talinn í yfirvofandi hættu (NT) á heimsválista og í nokkurri hættu (VU) á Evrópuválista (BirdLife International 2015).
Samkvæmt 7. gr. laga um dýravelferð er snýr að hjálparskyldu:
- Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum.
- Sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að gripið sé til aðgerða skv. 1. mgr. sé um hálfvillt eða villt dýr að ræða. Ráðherra sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra skal þó sjá til þess að gripið sé til slíkra aðgerða sé um að ræða villt dýr af stofni í útrýmingarhættu og dýr sem lenda í umhverfisslysum.
Atburðarás var þannig að þann 4. mars 2022 varð olíuleki úr niðurgröfnum olíutanki á Suðureyri við Súgandafjörð og um níu þúsund lítrar af olíu runnu út í tjörn og þaðan út í höfnina.
Heilbrigðiseftirlitið sagði í tilkynningu að því hafi fyrst verið tilkynnt um olíulykt á Suðureyri að morgni föstudagsins 4. mars. Í fyrstu virtist hafa orðið óhapp við áfyllingu og slökkviliðið kallað til sem fyrsta viðbragð við mengunarslysi. Olíu hafði verið dælt af tanknum og strax ljóst að mengunin væri mikil. Samt sem áður var ákveðið að bíða fram yfir helgi með að hreinsa upp olíu úr höfninni.
Íbúar í Súgandafirði sögðu ástandið í höfninni hafa verið martraðarkennt, þar hafi fleiri hundruð æðarfuglar legið bjargarlausir og útataðir í olíu. Íbúar komu upp fuglabjörgunarstöð í beitningaraðstöðu á Suðureyri. Þar voru um tuttugu æðarfuglar sem Súgfirðingar hófu að hreinsa og gefa næringu.
Það var ekki fyrr en 11. mars, heilli viku eftir olíulekann, sem dýralæknir mætti fyrst á svæðið. Hann ásamt Sigurlaugu Sigurðardóttur, sérfræðingi hjá Náttúrustofu Vestfjarða, úrskurðaði að af þeim 19 fuglum sem tekist hafði að bjarga skyldi aflífa 17 og einnig alla þá sem enn voru með lífsmarki á hafnarsvæðinu. Þetta úrskurðaði dýralæknir þvert á ráðleggingar sérfræðinga sem reynslu hafa af slíku björgunarstarfi.
Þeir Erpur Snær Hansen hjá Náttúrustofu Suðurlands og Þorkell Heiðarsson, sérfræðingur hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, eru báðir með mikla reynslu af því að bjarga fuglum eftir olíuslys og buðu fram starfskrafta sína. Þeir sögðu að ef fuglar lifðu af fyrstu 2-3 dagana væri vel hægt að bjarga þeim, það tæki þó vinnu og tíma.
Þorkell Heiðarsson var myrkur í máli þegar hann frétti af ákvörðun yfirvalda um að aflífa þyrfti fuglana. „Það er hægt að bjarga svona fuglum og er gert út um allan heim. Það þarf að bregðast hratt við. Fuglar sem hafa innbyrt mikla olíu drepast oft innan tveggja sólarhringa. Fuglar sem lifa það af geta alveg náð sér en það kostar vinnu. Það þýðir ekkert að drepa heilan fjörð af fuglum. Mér finnst magnað að það eigi bara að kalla til meindýraeyði,“ sagði Þorkell en daginn eftir voru allir fuglarnir aflífaðir nema tveir.
Orkubú Vestfjarða sagðist í tilkynningu harma seinagang og aðgerðaleysi fyrstu þrjá dagana og bauðst til að lána húsnæði sitt og greiða fyrir björgunaraðgerðir á þeim fuglum sem tekist hafði að bjarga en allt kom fyrir ekki, þeir voru aflífaðir. Ljóst er að með bættum verkferlum og viðbragðsáætlunum er hægt að koma í veg fyrir að slíkur harmleikur endurtaki sig og að hundruð friðaðra fugla séu aflífaðir þvert á ráðleggingar sérfræðinga í fuglabjörgun.
Samtök grænkera á Íslandi
Samtök um dýravelferð á Íslandi
Landvernd náttúruverndarsamtök
Fuglavernd
Ungir umhverfissinnar
Mynd: Elsa María Guðlaugs-Drífudóttir mbl.is